- Forsíða
- Efst á baugi
- Fjölskylduhelgin
- Innsend bréf
- Myndir
- Niðjatal
- Saga ættarinnar
- Um húsið
- Hlekkir ættarinnar
Nokkrar endurminningar frá Grund
Formáli
Þegar eg byrja ritun þessara minninga er eg ný orðinn sextugur, og þegar eg horfi til baka þá uppgötva eg hvað mannsæfin er í raun stutt, því mér finnst ekki svo langur tími frá því að eg var að alast upp á Grund.
Fyrir fimmtíu árum fannst mér óratími vera liðinn frá síðustu aldamótum og heil eilífð til þeirra næstu, sem nú eru gengin í garð.
Þessi sextíu ár er tími gríðarlegra breytinga á öllum sviðum og er varla hægt að ætlast til þess að þeir sem ekki hafa upplifað það sjálfir geri sér grein fyrir þeirri miklu framþróun sem orðið hefur þessa rúmu hálfa öld sem eg man aftur í tímann.
Mér finnst því við hæfi að segja frá þeim í stórum dráttum eftir því sem eg man best, til fróðleiks mínum afkomendum og öðrum þeim sem áhuga kynnu að hafa á fræðast um þann tíma sem eg upplifði á mínum uppvaxtarárum á Grund.
Þegar eg ber síðustu fimmtíu ár saman við næstu fimmtíu ár þar á undan held eg að breytingar þær sem orðið hafa á lífi manna séu mun meiri á síðari tímanum en þeim fyrri.
Þetta má bera saman með því að lesa endurminningar þær sem foreldrar mínir skrifuðu um uppvaxtarár sín.
Flest þau sjálfsögðu lífsþægindi sem við höfum í dag hef eg séð koma fram á sjónarsviðið svo sem símann, en hann var ekki kominn út um sveitir landsins fyrr en um miðja öldina.
Þá má telja rafmagnið, en það kom ekki í Svarfaðardalinn fyr en 1955 eða 1956.
Í endurminningum sínum segir pabbi frá húsakynnum á Grund þegar mamma og hann fluttu þangað vorið 1933. Það verður að segja að í okkar augum, sem þekkjum vart annað en vel boðleg húsakynni, er það einu orði sagt ófögur lýsing, og hef eg haft á orði við suma af afkomendum foreldra minna að varla hafi mamma orðið glöð við að flytja inn í þessa moldarkofa. En hún var ung á þeim tíma og ekki vön góðu, þó svo hún hafi verið búin að kynnast mörgum af þeim þægindum, sem hún varð síðan að bíða eftir, sumum í áratugi, á námsárum sínum í Reykjavík.
Bærinn á Grund eyðilagðist í jarðskjálftanum 1934, sem betur fer fyrir mömmu, segi eg því að þá fékk hún að komast í nýtt íbúðarhús, sem verður að telja að hafi verið all þokkalegt miðað við það sem þá var völ á í sveitum.
Eg ætla svo ekki að teygja lengur á þessum hugleiðingum, heldur snúa mér að því að lýsa daglegu lífi á Grund eins og eg man eftir því.
Húsakynni á Grund
Eg sagði frá því í formála að íbúðarhúsið var byggt 1934 eftir jarðskjálftann. Það var ekki stórt að grunnfleti. Eg veit ekki hvað margir fermetrar kannski ca. 100 Það stendur enn þegað þetta er skrifað en nú er nýbúið að byggja annað íbúðarhús á Grund.
Húsið er steypt og undir því er kjallari að hálfu og er hann að mestu í jörð, en þó eru gluggar á honum, sem snúa í austur.
Útidyr eru á austurhlið og lítil forstofa og önnur forstofa til vinstri þegar inn var komið, en úr henni dyr inn í stofu og aðrar að hjónaherbergi. Inn af fremri forstofu var eldhús, en til hægri var búr og úr því stigi niður í kjallarann og einnig var laus stigi upp á háaloft.
Eldhúsið var nokkuð stórt miðað við önnur herbergi í húsinu og inn af því aflangt herbergi sem sennilega hefur verið hugsað sem borðstofa, en var að mestu notað sem svefnherbergi eð vinnuherbergi fyrir saumaskap og aðra handavinnu. Þaðan var innangengt í lítið svefnherbergi og einnig í stofuna. Í eldhúsinu var kolaeldavél og miðstöðvarketill sem brennt var í kolum. Á seinni árum kom miðstöðvareldavél sem hitaði upp húsið. Í húsinu var venjuleg vatnshitun með ofnum í öllum herbergjum og var nægur hiti á daginn meðan ketillinn var kynntur, en á nóttunni þegar eldivið í katlinum þraut kólnaði í húsinu og gat orðið nokkuð svalt að fara fram úr á morgnana, einkum á veturna þegar kalt var í veðri. Þá voru allir gluggar með einföldu gleri og sá stundum ekki út um þá fyrir hrími og klaka.
Húsið stendur nokkuð hátt uppi og hallar landinu frá bænum til allra átta nema vesturs.
Bakvið húsið var það sem eftir var af gamla bænum, það er: baðstofa en framan við hana var nokkuð stórt geymsluhús sem byggt hefur verið fljótlega á eftir íbúðarhúsinu, og var í suðurenda þess innréttað íveruherbergi með kolakyntum ofni. Í baðstofunni var aðallega geymdur eldiviður bæði kol og líka þurrkað sauðatað sem notað var aðallega til að reykja við kjöt á haustin. Í suðurenda baðstofunnar var afþiljað herbergi sem hefur verið hjónaherbergi meðan þar var mannabústsaður, en var nú notað sem hænsnakofi.Í þessu húsi var einnig kamar, en vatnssalerni kom ekki í húsið fyrr en mörgum árum eftir að það var byggt.
Norðan við gamla bæinn var skemma sem notuð var til að geyma í og einnig til að reykja kjöt í á haustin.
Sunnan og austa við íbúðarhúsið var fjósið, ca. 40-50 metra frá húsinu. Fjósið var að mestu byggt úr torfi og grjóti, en byggt var við það bæði að vestan og sunnan úr timbri og bárujárni. Áfast fjósinu var hlaða byggð úr timbri og bárujárni.
Beint vestur af húsinu var fjárhús ca. hundrað metra frá því. Það var einnig að mestu torfbygging. Fjárhúsið var tvö sambyggð hús með burstum og timburstöfnum og tengd saman með einni kró,sem hefur verið útbúin nokkru síðar en húsin sjálf voru byggð. Þessi fjárhús voru alla tíð bestu útihúsin á Grund þangað til við fluttum þaðan. Vestan við fjárhúsin var hlaða, sem pabbi byggði, úr bárujárni og timbri, á steyptum grunni og var hún allstór miðað við þann tíma sem hún var byggð á.
Norðan við fjárhúsin var hesthús og var það einnig torfhús með timburþili og vestan við það var heytóft en ekki hlaða.
Tækniframfarir eða nútímaþægindi.
Vatnsveita
Sumir menn sem skrifa eða láta skrifa fyrir sig endurminningar telja sig muna eftir sér nánast frá fæðingu. Eg hinsvegar get ekki tímasett nákvæmlega hvenar eg man eftir mér fyrst, en eg tel mig muna eftir einstökum viðburðum eða hlutum án þess að eg geti tímasett þá með nokkurri nákvæmni. Þannig var um þann áfanga, sem varð í lífsþægindum heimilisfólksins á Grund, þegar lögð var vatnsleiðsla í íbúðarhúsið.
Eg tel mig muna eftir þeirri framkvæmd, en þó fremur óljóst.
Þorsteinn bróðir minn hefur staðfest við mig að rétt sé munað hjá mér, en tímasetningu hef eg ekki, þannig að eg geti sagt um árið, sem það var gert. Það hefur trúlega verið um miðjan fimmta áratuginn. Eg man eftir að það var grafinn skurður frá húsinu vestan verðu skáhallt, móti brekkunni og í bæjarlækinn sem rann sunnan við húsið. Við lækinn voru grafnar niður tvær trétunnur með stuttu millibili, og lítilli sprænu úr læknum veitt í þá fyrri og síðan voru þær tengdar saman með stokk. Fyrri tunnan var til þess að taka við sandi og öðru rusli sem lækurinn bar með sér og þurfti öðru hvoru að hreinsa upp úr henni. Vatnið í læknum var yfirborðsvatn og þætti ekki boðlegt sem neysluvatn nú á dögum. Í leysingum á vorin var það ónothæft og þurfti þá oft að bera vatn í bæinn eins og gert var áður. Þessi útbúnaður var við lýði alla mína tíð á Grund og eftilvill lengur.
Síminn
Í Sögu Dalvíkur er sagt frá því að sími hafi verið lagður fram í Grund árið 1946, svokallaður Bretavír sem algengur var á árunum eftir seinni heimsstyrjöldina.
Eg man eftir því þegar síminn kom í Grund, en strengurinn var plægður í jörð en ekki lagður á staurum. Eg efast um að rétt sé sagt frá í Sögu Dalvíkur að um hafi verið að ræða Bretavír, því eg efast stórlega um að svo ómerkilegur vír hefði þolað þá meðferð sem það var að plægja hann í jörð. Eg held að þarna hafi verið um að ræða öflugri kapal með fleiri en einni línu. Þessu er Þorsteinn bróðir minn sammmála, svo eg verð að telja að rétt sé munað hjá mér. Haraldur, sem þá bjó í Ytra-Garðshorni sætti sig ekki við að fá ekki síma líka svo hann fékk sér Bretavír, og lagði frá Grund og heim til sín. Þar við sat í símamálum sveitarinnar nokkur árin í viðbót.
Ekki var þessi sími merkilegur á nútíma mælikvarða en gerði þó sitt gagn og var mikil framför til að komast í samband við aðra landshluta.
Síminn var tengdur við miðstöð á Dalvík, sem gaf samband við það númer sem maður ætlaði að hringja í. Þó voru nokkrir bæjir á sömu línunni og hafði hver þeirra sina hringingu svo sem eina stutta og eina langa, svo dæmi sé tekið.Miðstöðin hafði eina langa hringingu. Gallinn við þetta var þó sá að hægt var að hlera samtöl innan sömu línunnar, og var það óspart gert, og svo gátu stúlkurnar á símstöðinni hlerað öll símtöl sem þær kærðu sig um.
Það kom nokkrum sinnum fyrir að síminn slitnaði, einkum í skurðum og lækjum, á veturna, enda var hann lagður á staurum yfir skurði og aðra vatnsfarvegi, en ekki ofan í botninn. Stundum kom fyrir að staurarnir brotnuðu undan snjóþyngslum og kapallinn slitnaði. Man eg eftir að pabbi fór æði oft til að gera við svona bilanir ásamt öðrum bændum í nágrenninu. Ekki hef eg trú á að það hafi verið hátt launað af .
Landsímanum að vinna að slíkum viðgerðum. Trúleg hefur það verið hrein sjálfsbjargarviðleitni, svo að menn væru ekki sambandslausir langan tíma.
Rafmagnið
Rafmagn kom ekki í Svarfaðardalinn fyrr en 1956, en Dalvíkin fékk rafmag miklu fyrr eða 1947 og þá frá dísilstöð sem var í eigu hreppsins en rafmagn frá RARIK kom ekki fyrr en Laxárvirkjun var tekin í notkun árið 1953.
Fyrir okkur sem erum alveg háð rafmagni er erfitt að hugsa sér hvernig lífið hefur verið án rafmagns en það er þó skýrt í minningunni hjá mér enda var eg orðinn sextán ára þegar eg kynntist þeim lífsgæðum sem það veitir okkur.
Fyrir tíma rafmagnsins voru notaðir olíulampar til lýsingar og kol eða annar eldsmatur til upphitunar og eldunar. Olíulampar voru til af mörgum gerðum og stærðum en algengastir voru litlir vegglampar, sem voru í herbergjunum og svo stærri lampar sem hengdir voru í loftið og var einn slíkur í stofunni. Í eldhúsinu var á seinni árum svokallaður Aladdinlampi en hann var svipaðir venjulegum loftlömpum nema yfir loganum var net sem magnaði upp birtuna frá loganum. Þessi lampi var miklu betri en aðrir lampar og bar mun meiri birtu.
Þá voru til lugtir sem hægt var að bera með sér úti og voru þær notaðar í fjósið og víðar þar sem eitthvað þurfti að gera. Þó mátti aldrei fara með þær eða annað ljós í hlöðurnar vegna eldhættu.
Raflínan um dalinn var lögð á staurum eins og enn er gert og var það mikið fyrirtæki með þeim tækjum sem þá voru til þeirra verka. Ekki voru til stauraborar í þá daga svo menn þurftu að grafa holur fyrir hvern staur með handafli. Þá voru tveir saman um holu og var annar með “ Llaga“ skóflu með mjög löngu skafti en hinn með nokkurskonar spaða, líka með löngu skafti; sem notaður var til að losa jarðveginn sem hinn mokaði svo upp. Holurnar voru grafnar talsvert á annan metra niður svo staurinn væri vel fastur.
Síðan voru staurarnir reistir með handafli og grjóti púkkað með þeim. Vírinn var dreginn út með hertrukk sem rúllan var fest á en síðan borinn upp á staurana og strengdur með handafli nokkurra manna.
Stramur var kominn á um veturinn og var rafmagnið lagt í húsið á Grund sama vetur og voru það rafvirkjar frá Akureyri sem það unnu. Í fyrstu var það eingöngu notað til lýsingar en fljótlega var fengin þvottavél,og einnig var keypt stór hrærivél. Ekki var um önnur rafmagnstæki að ræða fyrr en við fluttum til Dalvíkur aðeins fjórum árum seinna.
Dagleg störf og vélar og tæki
Heyskapur
Gríðarlegar breytingar hafa orðið á vinnu manna við að afla heyja handa bústofni sínum á síðustu áratugum. Eg man eftir flestum þeim vinnubrögðum sem tíðkuðust um aldir í þessu landi svo sem, að slá með orfi og ljá og snúa heyi með hrífu til að flýta fyrir þurrkun þess og raka því saman og binda í bagga.
Eg tel mig líka muna eftir að hey hafi verið flutt á klakk en þó ekki í miklum mæli.
Hinsvegar man eg vel eftir tveggja hjóla hestvögnum fyrir einn hest sem notaðir voru aðallega til að flytja bagga á, en komu einnig að gagni við aðra flutninga. Þetta voru léttir og liprir vagnar með stórum hjólum og auðvelt að smíða þá nema hjólin sem menn hafa þurft að kaupa.
Land til heyskapar á Grund var á gamla túninu kringum bæjinn og einnig á tveimur spildum sem þurrkaðar voru sunnan við bæjarlækinn. En mesta heyskaparlandið var neðan við veginn meðfram ánni og var því nokkuð langt að flytja það í hlöðu.
Heimatúnið var mjög grasgefið og kom snemma til á vorin en það var fremur leiðinlegt að vinna það vegna þess hvað það var óslétt. Landið niðri á flatanum meðfram ánni var aftur á móti miklu þægilegra til heyskapar.
Hestar gengdu lykilhlutverki við heyskap víðast hvar alveg fram á miðja öldina og voru framleiddar margskonar vélar sem hægt var að beita þeim fyrir, má þar fyrsta nefna sláttuvélina sem, tveimur hestum var beitt fyrir. Það var mikil framför frá því að standa dögum saman við orfið að maður tali nú ekki um hvað það tæki létti mönnum störfin.
Þessar vélar eru nú til sýnis á söfnum að því er eg best veit.( Það er til svona sláttuvél sömu tegundar og pabbi átti á safni í Bjarnarhöfn á Snæfellsnesi.) Þá má nefna snúningsvélar sem notaðar voru til að snúa heyinu, en þær komu töluvert seinna en sláttuvélarnar en eins og þær, auðvelduðu þær mönnum mikið heyskapinn. Svo var líka rakstrarvél sem einn hestur dró, en hún var notuð til að raka saman heyi þegar það var orðið þurrt.
Rakstrarvélin sem pabbi átti var mikið þarfaþing og skilaði ótrúlega góðu verki, því hún rakaði það vel að ekkert þurfti að raka eftir hana og voru þó gerðar miklar kröfur til þess að engin heydreif sæist eftir að búið var að hirða af túninu. Eg var ekki gamall þegar mér var trúað fyrir að vinna með rakstrarvélinni, sennilega ekki nema 12 ára eða þar um bil enda var oftast notaður meðfærilegur hestur fyrir hana og hún var auðveld í meðförum.
Þegar búið var að þurrka heyið var því rakað saman í garða með rakstrarvélinni og þeir síðan dregnir saman í hrúgur með planka sem dreginn var af hesti. Hrúgunum var síðan hlaðið upp í stórar sátur sem kallaðar voru bólstrar. Oftast var síðan breiddur strigi yfir bólstrana og þannig gátu þeir varið sig fyrir rigningu.
Vagnarnir sem eg sagði frá hér að framan voru aðallega ætlaðir fyrir bagga og voru því fremur afkastalitlir og einnig var mikil vinna að binda mikið magn af heyi með handaflinu einu saman. Þar sem stutt var að flytja heyið í hlöðu eins og af túninu kringum bæjinn voru bólstrarnir einfaldlega dregnir í heilu lagi heim að hlöðu. Var þá brugðið bandi utanum þá og hestum beitt fyrir og þeir dregnir eftir jörðinni.
Pabbi lét smíða fyrir sig stóran heyvagn einhverntíma eftir miðjan fimmta áratuginn og man eg vel eftir þegar hann var smíðaður. Hann var smíðaður ofan á tvo öxla sem voru á fremur litlum en nokkuð breiðum hjólum og gerður fyrir tvo hesta. Þetta var alger bylting í flutningi á heyi, og þessi vagn entist allar götur þangað til pabbi hætti búskap og trúlega eitthvað lengur því hann hefur eflaust verið seldur með öðru dóti þegar hann brá búi árið 1960, en ekki man eg hvert hann fór.
Eins og eg sagði var vagninn gerður fyrir tvo hesta, og var stöngin sem tengdi hann við dráttarbúnaðinn laustengd þannig að hægt var að losa hana frá vagninum með einu handtaki. Þetta ásamt því að vagninn var lágr frá jörðu gerði kleift að láta hestana draga bólstrana í heilu lagi upp á vagninn eftir tilþess gerðum fleka sem tengdur var við hann.
Töluverðar tilfæringar þurfti við þetta verk, svo sem að skorða vagninn svo að hann rynni ekki undan hlassinu, og einnig þurfti að bregða kaðlinum rétt utanum bólsturinn svo hann tættist ekki sundur. Síðan þegar komið var heim að hlöðu var hlassið dregið á sama hátt af vagninum. Fjárhúshlaðan sem var stærri, var með stórum dyrum sem hægt var að draga bólstrana innum í heilu lagi með talíu. Þessi aðferð við að flytja heyið í hlöðu var notuð að mestu leyti upp frá því það sem eftir var af búskapartíð pabba, nema hvað hestarnir voru leystir af þegar dráttarvélin kom.
Hér á undan hef eg aðallega lýst flutningi á heyi af túni í hlöðu, en mörg önnur handtök voru við heyskapinn og mikil vinna var við að þurrka heyið áður en hægt var að flytja það í hlöðu. Áður en vélar komu til sögunnar þurfti að snúa heyinu með hrífu, stundum oft sama heyinu eftir því hversu heppnir menn voru með þurrk. Því lélegri sem þurrkurinn var því oftar þurfti að snúa og stundum þurfti að raka í garða til að heyið lægi minna við jörð einkum þegar rigningartíð var og var það þá fljótara að losa sig við rigningarvatnið en þegar það var alveg flatt. Stundum var heyið sett upp í litlar sátur svo að það verði sig betur ef útlit var fyrir mikla rigningu og var þeim svo dreift aftur þegar þornaði og hægt var að ljúka við að þurrka það. Allt var þetta mjög vinnufrekt og þurftu allir sem vettlingi gátu valdið að taka þátt í vinnunni við heyskapinn því sumarið gat oft verið full stutt þegar ekki voru vélarnar til að flýta fyrir við störfin.
Því má svo bæta við meðan vélar og tæki eru til umfjöllunar að pabbi keypti Fergusondráttarvél vorið 1949. Þetta var tuttugu hestafla vél og kostaði ellefu þúsund krónur. Í því verði hefur sennileg verið flutningaskúffa en eg man ekki eftir sláttuvél fyr en seinna. Hann borgaði vélin út í hönd og hefur það trúlega ráðið úrslitum að hann fékk hana því eftir spurnin eftir þessum vélum var meiri en framboðið þetta ár.Um þessar vélar og sögu þeirra má fræðast í bókinni“Og svo kom Ferguson”eftir Bjarna Guðmundsson,og svo eru þær til á söfnum.
Önnur störf
Hér að framan hef eg aðallega fjallað um heyskap og vélar og tæki honum tengd, en margt annað þurfti að vinna við búskapinn árið um kring og lítið var um frídaga því sinna þurfti skepnunum alla daga jafnt.
Venjulega var farið á fætur á áttunda tímanum á morgnana og byrjað á því að fara í fjós og gefa kúnum á veturna en á sumrin þurfti að sækja þær í hagann og koma þeim inn í fjósið. Þar næst var farið í að mjólka þær en ekki voru komnar mjaltavélar á þeim tíma svo notast var við handaflið eingöngu. Pabbi eignaðist aldrei mjaltavélar í sinni búskapartíð svo eg kynntist ekki þannig þægindum.Á veturna þurfti síðan að gefa kindunum líka og einnig hestunum þegar þeir voru á húsi. Að þessu loknu var etinn morgunmatur og síðan voru kýrnar mjólkaðar og tekið til við önnur störf eftir því sem til þurfti. Á veturna gafst oft hlé frá störfum eftir hádegið en kindunum var gefið aftur seinnipart dagsins. Ekki var rennandi vatn í fjárhúsin og þurfti því að reka ærnar í vatnsból sem var lækurinn sunnan við fjárhúsin. Þar var vatni ausið upp í stampa sem þær drukku úr.
Fyrstu árin sem eg man eftir fjósinu var heldur engin vatnsleiðsla í því og þurfti að bera vatn í kýrnar úr læknum sunnan við það og var það talsvert verk því kýrnar þurftu mikið að drekka eins og gefur að auga leið enda stórar skepnur. Seinna var þó lögð vatnsleiðsla í fjósið og var þá hægt að láta renna í tunnu og var þá ólíkt þægilegra að brynna kúnum þegar ekki þurfti að sækja vatnið út. Næsta skref í framförum á þessu var síðan þegar vatnsleiðsla var lögð í hvern bás til kúnna og við hana festar skálar sem útbúnar voru með ventli sem kýrnar voru fljótar að læra á og gátu því drukkið þegar þær vildu. Þetta létti mikið störfin við umhirðu kúnna á veturna þegar þær voru í húsi.
Ekki er hægt að skilja við fjósverkin án þess að minnast á það sem kom frá kúnum bæði fast og fljótandi . Eg man eftir þegar útbúin var þró fyrir framan fjósið til að safna í hlandi frá kúnum, en það var notað sem áburður á túnið. Hún var grafin í jörð og lögð leiðsla frá henni inn í flórinn í fjósinu. Á vorin var síðan dælt úr henni í kassa sem sérstaklega var smíðaður fyrir það verkefni og var með dreifara sem dreifði innihaldinu. Þessi kassi var settur á kerru eða vagn sem dreginn var af hesti og seinna dráttarvél eftir að hún kom. Skítnum þurfti hinsvegar að moka saman í flórnum og síðan var honum mokað á handbörur sem tveir menn báru út í haug.
Við fjósið var lítil hlaða sem tók aðeins hluta af því heyi sem þurfti til að fóðra kýrnar á enda fjölgaði þeim seinni búskaparár pabba á Grund. Við fjárhúsin var hinsvegar stærri hlaða, sem eins og fyrr er sagt, pabbi byggði. Í henni var geymt hey handa kúnum og svo handa kindunum eins og plássið leyfði. Þó hafði taðan handa kúnum forgang að húsplássinu enda verðmætara fóður. Hey handa kindunum var því oftast sett saman vestan við hlöðuna, en þó var kúm og kindum oft gefið sama heyið úr hlöðunni einkum þegar komið var fram á vetur enda ekki mikið um engjaheyskap nema handa hestum.
Þetta fyrirkomulag hafði það í för með sér að mikið þurfti að flytja af heyi úr fjárhúshlöðunni í fjósið. Venjulega var gefið úr fjóshlöðunni framan af vetri en þó var oftast byrjað fljótlega að sækja í hina hlöðuna og gefa það hey með hinu. Þessir heyflutningar voru nokkuð drjúg vinna, enda sjaldan hægt að koma við flutningstækjum þegar kominn var snjór. Aðferðin við þessa flutninga var oftast að bera það í pokum milli húsa. Notaðir voru stórir pokar undan síldarmjöli sem tóku hundrað kíló (af mjöli en ekki heyi) og voru þeir troðnir út eins og hægt var. Er mér minnistætt hvað pabbi gat troðið fast í þá, því þeir voru nánast grjótharðir hjá honum.
Þannig liðu veturnir hver öðrum líkir nema misjafnlega snjóþungir og erfiðir. Snjórinn var oft til ánægju þegar hægt var að fara á skíði, en það gerðum við bræðurnir í verulegum mæli þegar færi og veður gafst. Ekki voru troðnar brautir eins og nú tíðkast og þurftum við því að búa okkur aðstöðu eftir því sem hægt var hverju sinni. Við þurftum að ganga upp brekkurnar ef við vildum renna okkur og svo réð brattinn að mestu hraðanum á niðurleiðinni því skíðin sem þá voru til voru ekki eins meðfærileg og nú gerist. Einnig gerðum við mikið að því að búa til stökkpall og stökkva á skíðunum og var það mikil skemmtun og stundum gat hún orðið nokkuð glannaleg en aldrei man eg eftir að við meiddum okkur neitt að ráði, en brotnum skíðum man eg eftir.
Á þessum árum voru vegir ekki mokaðir eins og nú gerist og voru því samgöngur oft heldur ógreiðar langtímum saman á veturnar. Fátt var um tæki til að halda vegum opnum og því var það einfaldlega óvinnandi verk. Þó var reynt að moka veginn milli Akureyrar og Dalvíkur nokkrum sinnum á vetri einkum þegar veðurútlit var þannig að vænta mátti þess að það bæri einhvern árangur um einhvern tíma. Þá þurfti að flytja mjólk úr sveitunum til Akureyrar og var því reynt að halda vegum opnum með þeim ráðum sem til voru en oft varð að grípa til þess ráðs að nota jarðýtur til að draga mjólk og annan flutning á sleðum, og þegar allt annað þraut varð stundum að flytja mjólk og varning sjóleiðina en það var frekar sjaldgæft enda fáir bátar tiltækir á veturna vegna þess að þeir voru þá flestir á vertíð við suðurlandið.
Á eftir öllum vetrum kemur vor og þá fjölgaði þeim verkum sem þurfti að vinna einkum þegar ærnar fóru að bera.
Sauðburður
Sauðburður hófst venjulega um miðjan maímánuð og stóð fram í júníbyrjun. Það var einn mesti annatími ársins með mörgum vökunóttum því fylgjast þurfti stöðugt með þeim ám sem vitað var að voru komnar að því að bera. Var því farið í fjárhúsin með reglulegu millibili allan sólahringinn og þegar ær var borin þurfti að færa hana í sér stíu sem útbúin var til þess. Það var gert til að ærin hefði frið fyrir öðrum ám og lömbin hefðu betri möguleika á að komast sem fyrst á spena, en það er forsenda fyrir því að þau haldi lífi, og var þeim oft hjálpað til þess. Var nýborin ær aldrei yfirgefin fyrr en lömbin voru komin á lappir og farin að sjúga. Oftast gekk þetta eðlilega fyrir sig en þó kom fyrir að eitthvað fór úrskeiðis og þurfti þá mannshöndin að koma til bjargar annað hvort við burðinn sjálfann eða við að koma lambi sem var líflítið til bjargar.
Sauðburðinum fylgdi mikil vinna eins og komið hefur fram en þó fór það mikið eftir tíðarfari. Þegar vel voraði og hlítt var í veðri voru ærnar oftast látnar bera úti og þurfti þá mikið minna að hafa fyrir þeim. En þegar hart var í ári og kalt í veðri þurfti að hafa allar skepnur innandyra og var þá oft mjög þröngt í fjárhúsunum og var þá oftast gripið til þess ráðs að koma lambám fyrir í hlöðunni enda oftast orðið þar talsvert gólfpláss þegar komið var fram í maí. Það var heilmikil fyrirhöfn að koma ánum fyrir í hlöðunni og var oftast hálfgert neyðarúrræði.
Áburður
Alltur úrgangur sem frá skepnum kom var nýttur til áburðar fyrst og fremst en þó var alltaf eitthvað af taði undan kindunum þurrkað og notað til að reykja við kjöt á haustin.
Alltaf þurfti að moka undan kindunum tvisvar á ári og var það gert einusinni um veturinn og þá var taðinu mokað út í haug fyrir framan fjárhúsið og svo aftur á haustin áður en ærnar voru teknar í hús en þá var taðinu yfirleitt ekið beint út á tún,en oftast var húsdýra áburður borinn á á haustin end ekki tími á vorin. Mykjunni frá kúnum var líka dreift á tún á haustin,en úr hlandþrónni var dreift á vorin. Þetta allt var heilmikil vinna enda ekki önnur verkfæri lengstaf en rekan og handaflið og enginn var dreifarinn eins og seinna kom. Varð því að handmoka öllu í kerru og dreifa svo úr henni á túnið. Seinni árin fékk pabbi þó moksturstæki á dráttarvélina sem léttu mikið undir við þetta.
Þegar komið var fram á vor þurfti að slóðadrag túnin einkum þar sem húsdýraáburður var notaður, en það var gert til að mylja skítinn niður í grasrótina so hann nýttist eins vel og hægt var. Var til þess notað svokallað hlekkjaherfi sen framleitt var eingöngu til þeirra nota. Þetta eins og fleira var dregið af hestum en seinna með dráttarvél, eftir að hún kom.
Á vorin var borinn á tilbúinn áburður eins og nú þekkist og var það gert svo langt aftur sem eg man. Við það verk varð í fyrstu að notast við handaflið eingöngu, og var áburðinum ausið á túnið úr fötu sem gengið var með í fanginu, Þetta var seinlegt og tímafrek enda mun ekki hafa verið um mikið magna að ræða í fyrstu, en þegar pabb og tveir eð þrír aðrir bændur í nágrenninu keyptu áburðardreyfara sem hestur dró mun áburðarnotkun hafa aukist talsvet og þar með uppskeran af túnunum. Seinnameir var þessi dreifari svo tengdur aftan í dráttarvél eins og fleiri tæki sem til voru.
Matarmenning
Mikil vinn og fyrirhöfn var að matbúa handa fólki á þessum tíma, enda var ekki mikið um unna matvöru eins og núna, heldur varð að frumvinna allt sem á borð var borið.
Miklu var safnað á haustin enda var þá slátrað bæði kindum og öðrum skepnum sem nýttar voru til matar. Nánast allir hlutar úr skepnunni var nýttur til matar og átti það jafnt við um innifli eins og aðra hluta. Garnir og vambir voru hreinsaðar og notaðar. Úr vömbunum voru saumaðir belgir utan um slátur og garnir voru notaðar í reykt bjúgu og annað í þeim dúr. Mikið var saltað af kjöti einkum kindakjöti, en einnig var saltað hrossakjöt, en ekki var þó mikið af því enda átti pabbi aldrei marga hesta. Þá var mikið reykt af allskonar kjötmeti. Mikið var soðið af slátri og það sett í súr, einnig lyfrarpilsa. Fleira var sett í súr, svo sem svið sem voru þá skorin niður og pressuð í mót og síðan borin fran niðursneidd. Svo langt sem eg man höfðu foreldrar mínir á leigu frystihólf á Dalvík og var talsvert af nýju kjöti sett þar í geymslu á haustin og líka hangikjöt og sviðahausar. Allir hausar og kindalappir voru sviðnir og einnig hausar af nautgripum. Mikið var ræktað af kartöflum og tókst að geyma þær út árið. Þær voru geymdar í trétunnum í kjallaranum, en þar var nógu kalt mest allt árið,en þó byrjuðu þær að spíra þegar kom fram á vorið, en þá var gripið til þess ráðs að brjóta af þeim spírurnar eftir því sem þurfa þótti og tókst þannig að varðveita þær sæmilega ætar þangað til hægt var að sækja nýja uppskeru í garðana.
Talsvert var líka ræktað af grænmeti og jarðávöxtum, einkum rófum, gulrótum hreðkum og svo ýmsum tegundum af káli.Þetta var ágæt búbót á sumrin og tilbreiting í því frá hefðbundnum mat. Rabarbari var mikið notaður og úr honum gerðir súpur og grautar, og svo að sjálfsögðu hellingur af sultu Mamma var mikið fyrir grænmeti og lagði mikla áherslu á að rækta sem mest af því end mun hún hafa verið vel meðvituð um hollustu þess, þó var það oftast ekki borðað hrátt heldur var kálið alltaf soðið svo og gulrófur en gulrætur voru ekki soðnar. Allskonar mjólkurafurðir voru framleiddar og mikið borðaðar. Talsvert magn af mjólk var skilin, en á heimilini var til skilvinda sem aðskildi rjóma og undanrennu. Þannig var skyr búið til í miklum mæli og einnig var búið til smjör, og eitthvað man eg eftir af ostum, allavega mysuosti man eg eftir en ekki í miklum mæli. Við þessa framleiðslu varð til mysa sem notuð var til að geyma í súrmat Fiskmeti var alltaf talsvert um og man eg ekki betur en það væri mest allt árið eitthvað um ferskan fisk. Hinsvegar fékkst stundum saltfiskur og talsvert var hert af fiski einkum þorsk, og þorskhausar voru hertir í talsverðum mæli. Þegar matreiddur var nýr fiskur þá var það oftast ýsa sem var skorin í stykki og soðin. Samt man eg eftir að mamma steikti steinbít sem var skorinn í sneiðar og gerði með honum sósu. Fiskur var einungis hversdagsmatur ásamt saltkjöti eða súpukjöti en á sunnudögum var oftast steikt kjöt og þá eitthvað meira haft fyrir því. Daglegar matar hefðir voru nokkuð ríkar, en á morgnana var eldaður hafragrautur, í hádeginu var eldaður heitur matur og var það aðal máltíð dagsins. Alltaf var elduð súpa með hádegismatnum og var því í raun tvíréttað alla daga. Miðdegiskaffi var svo um kl 3-4 og þá var alltaf brauð með, oftast heimabakað. Og svo var kvöldmatur um sjöleitið, en þá var oftast borinn fram kaldur matur og oft talsvert fjölbreyttur. Oftast var hræringur, en þá var hrært saman skyr og hafragratur og þannig nýttur afgangur frá morgninum. Með honum var oftast súrt slátur ásamt öðrum súrmat og stundum afgangar af ýmsu tagi, einnig var oftast flatbrauð og einhverskonar heimagert álegg með því svo sem rúllupylsa. Harðfiskur og hertir þorskhausar voru einnig á borðum. Eins og áður hefur komið fram var megnið af því brauði sem á borðum var heimabakað, en þó man eg eftir að bakarísbrauð var keypt einkum á sumrin. Þá gerðu bakaríin á Akureyri ú bíla á sem óku um sveitir og seldu brauð og mun all mikið hafa verið verslað við þá.
Kaffiduft var ekki í boði,eða allavega man eg ekki eftir því fyr en eg var orðinn fullorðinn, heldur voru kaffibaunir sem þurfti ða brenna og var það gert í ofnskúffu og síðan voru baunirnar malaðar í lítilli kvörn sem var að sjálfsögðu handsnúin
Ógnin
Í fjallinu fyrir ofan bæinn er stórt gil, sem lækurinn hefur grafið í tímans rás og framburðurinn úr því hefur einhverntímann dreifst yfis mest allt svæðið sem nú er gamla túnið og sennilega talsvert fyrir sunnan það líka, en mesta magnið er þó þar sem skriðan er norðan við túnið.Landið sem núna er tún eða gróið land hefur seinna gróið upp enda hefur í langan tíma tekist að verja það að mestu.
Lækurinn sem þessum hamförum hefur valdið er oftast frekar meinleysislegur og getur nánast þornað upp á veturna, en í vorleysingum getur hann orðið að beljandi fljóti sem engu eirir. Ástæðan er sú að hann rennut úr tjörn sem er undir norðasta hnjúknum í fjallinu,sem heitir Digrihnjúkur. Síðla sumars eða þegar kemur fram á haust hefur vatnsborðið í tjörninni lækkað það mikið að það hættir að renna úr henni um yfirfallið. En sennilega rennur eitthvað gegnum jarðveginn sem er trúlega talsvert lekur enda er þarna gamalt hraun.Þegar snjóar lokast vatnsfarvegurinn og getur orðið mjög þykkur skafl þarna á rúmlega þrjátíu metra breiðu belti.Svo þegar snjóa leysir á vorin safnast upp vatn á bak við þessa snjóstýflu þar til hún lætur undan og vatnið ryðst fram í farveginn og fer þá magn flóðsins eftir því hvað skaflinn er þykkur,en snjór á fjöllum getur orðið mjög þéttur og samanbarinn í hörðum veðrum ólíkt því sem gerist á láglendi.
Eina vörnin sem menn höfðu geg þessari ógn var að fara upp á vorin og moka göng í gegnum skaflinn, og var það gert meðan eg man eftir. Þannig tókst í flestum tilfellum að komast hjá stórflóðum á vorin. Þó skeði það vorið 1949, en þaá var mjög snjóþungur og harður vetur og auk þess voraði seint. Pabbi dró óvenju lengi að fara upp og moka enda mun hafa verið mikið snjómagn í farveginum, þó var alltaf farið upp til að meta ástandið áður en mokstur var ákveðinn,en hann hafði það sem viðmið að þegar snjórinn ofan á ísnum á tjörninni var orðinn vatnsblandaður,farinn að blána, þá var kominn tími á mokstur. En þetta vor lét standa á sér og auk þess voru miklar annir vegan sauðburðar en allar skepnur voru í húsi óvenjulengi og var það til að auka alla fyrirhöfn. En svo skifti um snögglega og hlýnaði mjög skarpt og þá var fjandinn laus.Safnað var liði af næstu bæjum og farið upp að kvöldi til um og mokað,en menn voru vart komnir heim aftur um morguninn þegar flóðið kom. Á þessum tíma voru engar stórar vinnuvélar til og höfðu menn því ekkert til varnar nema handaflið og skófluna, sem mátti sín lítils í þeim hamförum sen dundu á á þessum degi. Þó reyndu menn að halda flóðinu innan lækjarfarvegarins eftir mætti en megnuðu ekki svo flóðið tók að dreifa úr sér þegar leið á daginn og um kvöldið vaoru húsin talin geta verið í hættu og voru því mamma og við krakkarnir flutt í Ytra Garðshorn um kvöldið og gistum þar um nóttina. Ekki kom þó til að stórtjón yrði, aðeins flæddi lítilsháttar um túnið með tilheirandi aurburði sem auðvelt var að hreinsa, en þjóðveginn tók í sundur í lækjarfarveginum og mikill framburður af möl og grjóti barst á landið neðan vegarins sem ekki var ræktarland. Hinsvegar skeði það þegar flóðið stóð sem hæst að farvegurinn stíflaðist ofarlega í fjallinu, ofan við neðribrún sem kallað er, en þar mun vatnið hafa runnið í gegnum stóran skafl í göngum til að byrja með en svo mun skaflinn hafa fallið ofan í farveginn og stíflað rennslið, sem þá fann sér leið til norðurs og í næsta læk sem kallaður er Ljósgilslækur og rennur á milli Grundar og Brekku. Þegar svo flóðið hafði brotið sér leið gegnum stífluna kom lækurinn aftur í sinn venjulega farveg af fullum þunga aftur, þangað til lækkað hafði í tjörninni það mikið að rennslið var orðið nokkurnvegin eðlilegt.
Þetta vor munu foreldrar mínir hafa íhugað alvarlega að flytja burt frá Grund, enda var mjög hart í ári þetta vor og veturinn á undan. Pabbi mun hafa leitað eftir öðru jarðnæði einkum í Skagafirði og fóru hann og mamma einn rigningadag um sumarið vestur til að skoða jörð þar um slóðir en ekkert varð þó úr breytingum í það skifti.
En aftur að Nikurtjörninni, það vandamál hvarf ekkert en þó man eg ekki eftir öðrum eins hamförum aftur eins og vorið 1949. Hinsvegar man eg eftir gríðarlegu fannfergi að eg held veturinn 1955, en eg var þá fimmtán ára. Þá um vorið fór hópur manna,að eg held sex eða sjö að, mér sjálfum meðtöldum, upp að tjörninni eitt kvöld til að moka gegnum skaflinn, sem var að þessu sinni óvenju þykkur og stór. Þegar komið var á staðinn var tekin ákvörðun um að moka ekki göng eins og venja var, heldur grafa gryfjur með nokkra metra millibili og grafa síðan göng á milli Vegalengdin sem moka þurfti var eitthvað yfir 30 metrar, sennilega 36 að mig minnir, þannig að þarna var ansi mikið verkefni, sem klára þurfti um nóttina enda höfðu þessir menn sem þarna voru samankomnir nóg að starfa við skepnuhirðingu á þessum árstíma, þar sem þetta var þegar allir voru upptrknir af sauðburð. Þarna var því unnið af kappi og grafnar gryfjur sem sumar voru þriggja metra djúpar og síðan opnuð göng á milli.Mér er minnisstætt enn í dag hvernig aðstæður voru þarna, snjórinn grjót harður svo að aðeins stunguskóflur komu að gagni við að losa hann og þurfti að tvímoka þegar komið var langleiðina niður í lækjarfarveginn því maður náði ekki upp á brún frá botni. En allt hafðist þetta og við gátum opnað lækjarfarveginn seinnihluta nætur og haldið heim á leið eftir erfiða nótt.
Næsta vor á eftir fórum við pabb bara tveir til að athuga ástandið eftir snjóléttan vetur og var þá öðruvísi um að litast, aðeins lítill skafl, en þó nóg til að hindra rennsli úr tjörninni þannig að yfirborð hennar var orðið hærra en útrennslið. Það tók okkur ekki langa stund að opna farveginn að þessu sinni aðeins einn eða tvo tíma . Þetta var að degi til í blíðskapar veðri, sunnan stinningsgolu og sólskini, semsagt hláku, eins og best gerist á vorin og upplifunin að vera þarna var einstök í kyrrðinni sem stöku sinnum var rofin af skruðningum þegar grjót og laus jarðvegur var að hrynja úr hnjúknum ofan á ísinn á tjörninni. Maður þarf að sjá svona hluti með eigin augum til að skynja áhrifin.
Jóhannes Stefánsson